Innlent

Borgarfulltrúar VG vilja fresta sölu á hlut OR í HS orku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorleifur Gunnlaugsson vill fresta sölu á hlutnum í HS orku. Mynd/ GVA.
Þorleifur Gunnlaugsson vill fresta sölu á hlutnum í HS orku. Mynd/ GVA.
Borgarfulltrúar Vinstri grænna krefjast þess að ákvörðun borgarstjórnar um sölu á hlut Orkuveitunnar í HS orku verði frestað þar til nefnd um erlendar fjárfestingar hefur fjallað um málið.

Í tilkynningu sem Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, sendi fjölmiðlum segir að ítrekað hafi verið bent á þá staðreynd að tilboð í hlut HS Orku komi í raun frá kanadísku fyrirtæki, þó notast sé við sænskt skúffufyrirtæki í þeim eina tilgangi að fara á svig við íslensk lög.

Þorleifur segir að það sé með ólíkindum að meirihluti borgarstjórnar skuli vera svo einbeittur í vilja sínum til að færa orkufyrirtæki og orkuauðlindir í hendur erlendra fjárfesta að ekki sé með afgerandi hætti gengið úr skugga um að gjörningurinn standist íslenska löggjöf.

Segir Þorleifur að borgarfulltrúar Vinstri grænna muni fara fram á frestun á afgreiðslu samningsins á borgarstjórnarfundi á morgun klukkan 14, enda sé óásættanlegt með öllu að Reykjavíkurborg gangi frá samningnum á meðan óvissa ríki um lagalegt réttmæti hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×