Erlent

Norður-Kórea afþakkar matvælaaðstoð

Óli Tynes skrifar
Níu milljónir líða hungur í Norður-Kóreu
Níu milljónir líða hungur í Norður-Kóreu

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í dag að stjórnvöld í Norður-Kóreu hefðu tilkynnt að þau óskuðu ekki eftir frekari matvælaaðstoð frá Bandaríkjunum.

Jafnframt var fulltrúum fimm hjálparsamtaka í Norður-Kóreu tilkynnt að ekki væri lengur óskað eftir nærveru þeirra. Engar skýringar voru gefnar.

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að níu milljónir manna þurfi á aðstoð að halda, en það er nær þriðjungur þjóðarinnar.

Í júní á síðasta ári var gert samkomulag um að Bandaríkin myndu senda hálfa milljón tonna matvæla til Norður-Kóreu.

Ein ástæðan fyrir aukinni spennu milli Norður-Kóreu og annarra landa er að norðanmenn hafa tilkynnt að þeir ætli að skjóta langdrægri eldflaug út á Kyrrahaf á milli fjórða og áttunda apríl.

Sú eldflaug mun fljúga yfir Japan og Japanar hafa sagt að þeir séu reiðubúnir að skjóta hana niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×