Íslenski boltinn

Gunnar: Eigum eftir að sækja fullt af stigum í sumar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.

Þróttarar náðu sér í dýrmætt stig í kvöld þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við KR-inga á heimavelli þeirra síðarnefndu í Vesturbænum.

Greinilegt var að Þróttarar voru komnir með það að markmiði að verjast af krafti og viðurkenndi Gunnar Oddsson þjálfari þeirra það fúslega að aðaláhersla liðsins hefði verið á varnarleikinn. "Það vita það allir sem sáu síðasta leik hjá okkur að við spiluðum enga vörn og vorum brotnir og litlir eftir það, þannig að það gefur auga leið að þegar maður fær á sig sex mörk á heimavelli þá ætlar maður að einbeita sér að varnarleiknum," sagði Gunnar í samtali við Vísi að leik loknum.

KR liðið skapaði sér ekki mörg tækifæri gegn fjölmennri vörn Þróttara og Gunnar var mjög ánægður með framlag sinna manna. "Þetta var 1000% bæting bardagalega séð og varnarleikurinn var flottur. Sindri var öflugur í markinu og mér fannst við ráða þokkalega við þá. Þeir settu auðvitað pressu á okkur í hornspyrnum sem við réðum vel við. Ungu mennirnir sem komu inn í þennan leik leystu það vel af hólmi. Ég er mjög sáttur við þetta," bætti Gunnar við.

"Fyrst og fremst er ég ánægður með að menn eru farnir að sýna sitt rétta andlit og ég hef trú á því að þetta lið geti staðið sig áfram í þessari deild. Ef menn leggja sig 100% fram þá eigum við eftir að sækja fullt af stigum í sumar," sagði Gunnar Oddsson þjálfari Þróttar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×