Erlent

Aukin pressa á Íransstjórn

Á fundi G20-ríkjanna voru leiðtogar Frakklands, Bandaríkjanna og Bretlands á einu máli í gagnrýni sinni á Írana. fréttablaðið/AP
Á fundi G20-ríkjanna voru leiðtogar Frakklands, Bandaríkjanna og Bretlands á einu máli í gagnrýni sinni á Írana. fréttablaðið/AP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti fyrir helgina einróma að „skapa skilyrði þess að heimurinn verði án kjarnorkuvopna“.

Í ályktun ráðsins er þess krafist að frekari hömlur verði lagðar á útbreiðslu kjarnorkuvopna, betra eftirlit verði með búnaði og efnum í kjarnorkuvopn, hvatt verði til kjarnorkuafvopnunar og þess gætt að slík vopn komist ekki í hendur hryðjuverkamanna.

Ályktun ráðsins var samin af Bandaríkjastjórn, en Rússar, Kínverjar og önnur ríki í Öryggisráðinu tóku vel í málið og samþykktu öll ályktunina.

Í beinu framhaldi af því jók Obama síðan þrýstinginn á Íransstjórn í gær, þegar hann upplýsti um kjarnorkuver í Íran sem þarlendir hafa hingað til reynt að halda leyndu fyrir umheiminum.

„Íranar eru að brjóta reglur sem öll ríki verða að fylgja,“ sagði Obama, og vill að samþykktar verði nýjar refsiaðgerðir á Írana bæti þeir ekki ráð sitt. Aðrir þjóðar­leiðtogar á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Pittsburgh tóku undir þetta með honum.

Norður-Kórea er einnig undir auknum þrýstingi fyrir að lúta ekki alþjóðlegum lögum um meðferð kjarnorku. „Þetta snýst ekki um það að taka neitt eitt ríki fyrir,“ sagði Obama. „Alþjóðalög eru ekki innantóm loforð, og samningum verður að fylgja eftir.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×