Innlent

Heppilegt að borgin kaupi Egilshöll

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti VG í borgarstjórn.
Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti VG í borgarstjórn. Mynd/Anton Brink
„Við teljum jafnvel að það borgi sig að kaupa Egilshöll heldur en að leigja hana," segir Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn. Hann fullyrðir að langbest sé fyrir borgina að hún eigi húsnæði og reki fasteignafélag um reksturinn í stað þess að leigja það af einkaaðilum.

Borgarráð samþykkti fyrir helgi samkomulag á milli Reykjavíkurborgar og nýja Landsbankans um rekstur og leigu Egilshallar. Á sama fundi var samþykkt tillaga fulltrúa VG og Samfylkingar um að gerð verð úttekt af reynslu borgarinnar af verkefnum í einkaframkvæmd.

Fjármálaskrifstofu verður falið að meta kosti og galla einkaframkvæmda og hvernig slíkar framkvæmdir hafa reynst í samanburði við eiginframkvæmdir borgarinnar. Leitast verður við að leggja mat á heildarkostnað vegna framkvæmda í einkaframkvæmd annarsvegar og eiginframkvæmd borgarinnar hinsvegar.

Ekki góð pólitík

Borgarfulltrúinn telur brýnt að teknar verði saman tölulegar staðreyndir um þessar leiðir og fá samanburð. „Borgin er að fara illa út úr þessari stefnu sem var tekin upp úr aldamótum að fara að selja húsnæði og leigja af öðrum. Það hefur ekki reynst góð pólitík."

Þorleifur segir að þegar upp er staðið er ódýrara fyrir

Reykjavíkurborg að eiga eigið húsnæði og reka fasteignafélag um rekstur þess heldur en að leigja af einkaaðilum. „Einkaaðilar þurfa alltaf að fá sinn hagnað."

Máli sínu til stuðnings nefnir Þorleifur Höfðatorg en þar eru fjölmargar af skrifstofum Reykjavíkurborgar staðsettar. Hann segir leiguna himinháa þar sem hún sé vísitölubundin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×