Innlent

FME skoðar birtingu DV á lánabók Kaupþings

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið hefur birtingu DV á upplýsingum úr lánabók Kaupþings til skoðunar. Þetta staðfestir Gunnar Andersen, forstjóri stofnunarinnar, sem sagðist að öðru leyti ekki vilja tjá sig um einstök mál.

Í yfirlýsingu sem DV lét fylgja umfjöllun sinni undir lok síðasta mánaðar kemur fram að ritstjórn blaðsins meti það svo að upplýsingar um lánveitingar Kaupþings til starfsmanna sinna geti hjálpað til við að útskýra orsakir efnahagshrunsins. Því varði birting þeirra almannahagsmuni og sé réttlætanleg.

FME hafði fyrir hóp blaðamanna til rannsóknar, þau Egil Helgason, Þorbjörn Þórðarson, Agnesi Bragadóttur og Kristinn Hrafnsson, en þeim er borið á brýn að hafa brotið lög um bankaleynd með skrifum sínum.

Aðspurður segir Gunnar að sú rannsókn sé á lokastigum og tekin verði endanleg ákvörðun í því máli á næstu vikum. Kemur þá í ljós hvort málinu verði vísað til saksóknara eða lögreglu, eða látið falla niður ella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×