Lögreglan leitar þriggja manna í tengslum við bruna Range Rover bifreiðar aðfararnótt síðastliðins þriðjudags. Bíllinn var í eigu þeirra Stefáns Hilmarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs og Friðriku Hjördísar Geirsdóttur dagskrárgerðarkonu.
Bifreiðin var staðsett fyrir utan bílskúr við heimili þeirra á Laufásvegi þegar kveikt var í honum um klukkan tvö um nóttina að talið er. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni sýna upptökur úr öryggismyndavélum í nágrenninu þrjá menn sem sterklega eru grunaðir um verknaðinn, en talið er að þeir hafi verið á bláleitri Audi A6 eða VW Passat bifreið.
Allir þeir sem hugsanlega geta aðstoðað lögreglu við rannsókn málsins og veitt upplýsingar sem að gagni koma um framangreindar mannaferðir eru beðnir um að hafa samband í upplýsingasíma Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en númerið er 444 1100.
Nánar verður fjallað um rannsókn málsins í kvöldfréttum Stöðvar 2.
