Innlent

Boða til greiðsluverkfalls um mánaðarmótin

Á opnum fundi Hagsmunasamtaka heimilanna sem haldinn var í Iðnó í gær var samþykkt ályktun þar sem gerð er krafa um almennar leiðréttingar lána vegna forsendubrests af völdum kreppunnar.

„Þessar kröfur fá vaxandi hljómgrunn meðal almennings og æ fleirum verður ljóst að slíkar leiðréttingar eru bæði réttlátar, sanngjarnar og hagkvæmar fyrir samfélagið í heild," segir ennfremur í ályktuninni. „Það er dapurleg staðreynd að stjórnvöld skuli ekki svara þessum kröfum og ekki einu sinni ganga til viðræðna við samtökin. Ríkisstjórnin hefur boðað aðgerðapakka í októbermánuði en flest bendir til að þar verði enn einn pakkinn sem eru umbúðir einar."

Að lokum segir að skuldugur almenningur eigi því þann kost einan að fylkja sér til þátttöku í greiðsluverkfalli til að fylgja eftir kröfum um sanngjarnar leiðréttingar. „Hægt er að taka þátt í greiðsluverkfallinu með því að borga ekki af lánum frá 1. - 15. október, með því að taka innstæður sínar út úr ríkisbönkum og takmarka viðskipti sín og veltu í þeim eftir megni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×