Innlent

Viðsemjendur fái niðurstöðu fjárlaganefndar á undan Alþingi

Ingimar Karl Helgason skrifar

Til stendur að kynna Bretum og Hollendingum niðurstöðu fjárlaganefndar í Icesave málinu, bak við tjöldin, áður en breytingar á frumvarpinu verða lagðar fyrir Alþingi. Heimildir fréttastofu herma að gengið sé langt í fyrirvörum.

Fjárlaganefnd hefur rætt ýmsa fyrirvara við frumvarp um ríkisábyrgð við Icesave samninginn. Hún fól undir hádegi fimm lögfræðingum að orða fyrirvarana sem frumvarpstexta. Lögmennirnir komu á fund fjárlaganefndar um þrjúleytið, en síðan fengu þingflokkar á Alþingi málið til umfjöllunar.

Óvíst er að fundum þingflokka verði öllum lokið fyrr en um áttaleytið, en þá ætlar fjárlaganefnd að koma saman aftur og ganga frá málinu fyrir sitt leyti.

Til stendur að breyttu frumvarpi verði dreift á Alþingi á laugardaginn eða jafnvel ekki fyrr en eftir helgi.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fjárlaganefnd vilji ganga mjög langt í fyrirvörum sínum. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri Grænna, segir að viðbrögð Hollendinga og Breta verði að koma í ljós. Fyrirvararnir þjóni samfélagslegum markmiðum íslendinga og líka að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×