Innlent

Dóttir Gunnars Birgissonar fær aftur vinnu hjá Kópavogi

Gunnar lenti í pólitískum stormi vegna dóttur sinnar, sem aftur hannar umhverfisviðurkenningar handa bænum.
Gunnar lenti í pólitískum stormi vegna dóttur sinnar, sem aftur hannar umhverfisviðurkenningar handa bænum.
Hið umdeilda fyrirtæki, Frjáls miðlun, var með lægsta tilboðið í hönnun og gerð á viðurkenningarskjölum og merkjum handa Kópavogsbæ á dögunum og var tilboðinu tekið af hálfu bæjarins.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem verkið er boðið út en Frjáls miðlun, sem er í eigu dóttur Gunnars Birgissonar fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs hefur séð um að útbúa viðurkenningarnar síðustu ár. Viðskipti fyrirtækisins við bæjarfélagið hafa vakið athygli á síðustu vikum og úttekt á viðskiptunum varð til þess að bæjarstjórn samþykkti að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gerði skýrslu um viðskipti bæjarins við Frjálsa miðlun sem vakið hefur mikla athygli. Eitt af verkefnum Frjálsrar miðlunar sem tekið var til skoðunar í skýrslunni og þótti umdeilt var einmitt sama verk og fyrirtækið hefur hreppt nú í útboði. Gunnar Birgisson gagnrýndi skýrsluna alvarlega.

Frjáls miðlun vann umhverfisviðurkenningar fyrir Kópavogsbæ árin 2003 til 2008 og í öll skiptin án útboðs. Árið 2006 voru viðurkenningarnar dýrastar en þá greiddi bærinn fyrirtækinu rúmar 759 þúsund krónur fyrir verkið. Ódýrastar voru viðurkenningarnar árið 2004 þegar þær kostuðu 199 þúsund en í fyrra nam reikningurinn rúmum 520 þúsund krónum.

Það var umhverfisráð sem samþykkti tilboðið. Fundurinn var haldinn áttunda júní. Þess má geta að Gunnar sat ekki fundinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×