Innlent

Sjálfstæðisflokkur á móti skylduskráningu

Leiðtogar sjálfstæðismanna.
Fréttablaðið/stefán
Leiðtogar sjálfstæðismanna. Fréttablaðið/stefán

Sjálfstæðisflokkur sker sig frá öðrum flokkum í afstöðu sinni til reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum þingmanna. Hann vill að þingmenn ákveði sjálfir hvort þeir skrái þessar upplýsingar eða ekki. Rætt verður um reglurnar í forsætisnefnd Alþingis í dag.

„Þeir sem gefa kost á sér til stjórnmálastarfs hljóta að geta valið um það með hvaða hætti þeir sýna sín fjármál," segir Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna.

Vinstri græn vilja hins vegar að í stað reglna verði sett lög. Brot á þeim yrðu refsiverð.

Samfylking telur téð valfrelsi draga úr því gagnsæi sem stefnt er að, og eins Framsókn. Þá vill Samfylking að þingmenn greini frá skuldum sínum líka.

Forsætisnefnd sendi flokkunum drög að þessum reglum í mars 2007. Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, vill ljúka málinu á fundi nefndarinnar í dag, eða í síðasta lagi eftir viku: „Ég ætla rétt að vona að þetta klárist fyrir kosningar, og hef trú á því."

Samkvæmt drögunum er þingmönnum leyft að skrá tekjur af störfum utan þings, og stóra eignarhluta í félögum. Þá geta þeir sagt frá stuðningi félagasamtaka, ferðalögum sem greidd eru utan úr bæ og gjöfum, sem geta tengst þingsetu. Einnig frá fjárhagslegu samkomulagi við vinnuveitendur. Makar þingmanna falla ekki undir reglurnar.

Upplýsingarnar skal skrá innan mánaðar eftir að nýtt þing kemur saman og gera aðgengilegar almenningi tuttugu dögum síðar. Frjálslyndir veittu blaðinu ekki upplýsingar um sína afstöðu.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×