Innlent

Engir biðlistar lengur hjá dagforeldrum

Ólöf, sem situr í stjórn félags dagforeldra í Reykjavík, segist telja að leyfislausum dagforeldrum hafi fjölgað frá því í haust og hefur af því áhyggjur.
Ólöf, sem situr í stjórn félags dagforeldra í Reykjavík, segist telja að leyfislausum dagforeldrum hafi fjölgað frá því í haust og hefur af því áhyggjur. Fréttablaðið/arnþór

„Það fækkar börnum hjá okkur, frá og með októ­ber, þegar heimgreiðslurnar koma á og bankahrunið verður. Það er eiginlega ekkert hringt og leitað eftir plássum," segir Ólöf Lilja Sigurðardóttir sem situr í stjórn Barnavistunar, félags dagforeldra í Reykjavík.

Hún segist telja að leyfislausum dagforeldrum hafi fjölgað frá því í haust. „Það gerir bæði kreppan, fólk sem er að missa vinnuna, og heimgreiðslurnar. Ef ekki væri fyrir þær væri meiri hvati fyrir foreldra að koma inn í okkar kerfi," segir Ólöf. Atvinnuleysi geti ekki skýrt allan samdrátt hjá dagforeldrum þar sem fækkun barna hjá þeim sé umfram atvinnuleysistölur. Þá hafi samdráttur verið hjá dagforeldrum í Kópavogi árið eftir að heimgreiðslur voru teknar upp, þó að atvinnuleysi hafi þá verið lítið.

„Dagforeldrum fækkar ekki," segir Ólöf. „Þeir eru bara með færri börn í ár. Ég gæti trúað að næsti vetur yrði erfiðari, en við vitum ekkert. Það kemur bara í ljós í október og nóvember þegar leikskólarnir taka börn frá okkur. Við vitum bara að fólk pantar ekki með fyrirvara lengur."

„Það er háalvarlegt mál að fólk sé að gefa sig upp sem dagforeldra án þess að hafa tilskilin leyfi," segir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, fulltrúi Samfylkingar í leikskólaráði Reykjavíkur. „Þetta snýst um að tryggja börnum öryggi og faglega umönnun. Við vöruðum við því fyrirfram að heimgreiðslur myndu ýta undir svarta starfsemi, og það hefur orðið raunin," segir Bryndís.

„Við höfum kallað eftir að dagforeldrar láti vita um grunsemdir sínar um leyfislausa starfsemi," segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs Reykjavíkur. „Það hefur ekki orðið aukning á ábendingum og því höfum við ekkert í hendi um að þetta sé að aukast."

Þorbjörg Helga bendir á að stór hópur barna hafi fengið inngöngu í leikskólana síðastliðið haust. „Við vissum að í haust fóru tæplega 300 börn á einu bretti inn í leikskólana. Dagforeldrar misstu þar 200 börn frá sér og eru að vinna þetta stökk upp."svanborg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×