Innlent

Gjörgæsludeildir fullar: Bætt við tækjakost spítalans

Landspítali
Landspítali

Líkt og greint var frá fyrr í dag var Landspítalinn færður á svokallað virkjunarstig viðbragðsáætlunar spítalans klukkan 10:00 í morgun, samkvæmt ákvörðun forstjóra LSH. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem slíkt gerist en virkjunarstig er næstefst af fjórum viðbragðsstigum viðbragðsáætlunarinnar. Á hádegi í dag voru 35 inniliggjandi á Landspítala vegna inflúensu A(H1N1), þar af 8 á gjörgæslu. Auk þess hefur verið mikið um önnur alvarleg veikindi og slys sem hafa krafist innlagnar á gjörgæsludeild síðustu daga.

Í tilkynningu frá spítalanum segir að stjórnun aðgerða sé á höndum viðbragðsstjórnar sem skipuð er af forstjóra, framkvæmdastjórum lækninga og hjúkrunar, framkvæmdastjóra eignasviðs, framkvæmdastjóra bráðasviðs og farsóttarnefnd. Formaður farsóttarnefndar er Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar.

Viðbragðsstjórnin kom saman til fundar í hádeginu í dag til þess að meta stöðuna og ákveða næstu aðgerðir. Eftirfarandi var meðal þess sem fram kom eða var ákveðið:

Klínískar deildir

· Ekki er ástæða til að rýma eða breyta deildum vegna faraldursins.

· Allar deildir taka inflúensusjúklinga.

· Yfirmenn hafa heimild til að færa starfsmenn milli deilda tímabundið, ef aðstæður krefjast.

· Valkvæð starfsemi verður takmörkuð eftir því sem við á.

Bráðamóttökur

· Starfsemi bráðamóttaka verður með óbreyttum hætti.

· Greiningarsveit verður ekki virkjuð að svo stöddu.

· Áfallamiðstöð verður ekki virkjuð.

Bjargir

· Hjúkrunarvörur - almenn birgðastaða er góð.

· Lyfjabirgðir eru nægjanlegar.

· Tækjabúnaður - bætt hefur verið við tækjakost spítalans.

Farsóttarnefnd Landspítala ítrekar tilmæli sín til almennings að takmarka heimsóknir sínar til sjúklinga á sjúkrahúsinu meðan á inflúensufaraldrinum stendur. Einungis þeir sem eiga brýnt erindi mega koma inn á spítalann, aðrir eru hvattir til að nota símann og tala við sjúklingana sjálfa eða starfsfólk viðkomandi deildar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×