Enski boltinn

Markaðurinn á Englandi mun springa

NordicPhotos/GettyImages

Gordon Strachan, þjálfari Celtic í Skotlandi, segir að leikmannamarkaðurinn á Englandi eigi eftir að springa áður en langt um líður.

Lítið hefur verið um félagaskipti í skoska boltanum í janúarglugganum í kreppunni, en hún virðist ekki ná í enska boltann þar sem leikmenn eru keyptir á háar fjárhæðir og laun leikmanna eru með því hæsta sem gerist.

"Markaðurinn er hræðilegur og enska deildin er að drepa allar hinar. Allir leikmenn vilja fara til Englands og það er ekki möguleiki að fá leikmenn þar til að fara annað. Ég held að markaðurinn fari brátt að springa," sagði Strachan í samtali við breska sjónvarpið.

"Ég ræddi við yfirmann í enska boltanum fyrir nokkru og þar eru sæmilegir leikmenn að fá helmingi meira borgað en bestu leikmennirnir hérna í Skotlandi. Fyrir sjö árum síðan var Celtic með fimmta hæsta launakosnaðinn á Bretlandseyjum en í dag getum við ekki keppt við félög eins og Stoke og Hull," sagði Strachan, sem áður var m.a. stjóri Coventry á Englandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×