Innlent

Nokkrir fengið stöðu grunaðra hjá sérstökum saksóknara

Ingimar Karl Helgason skrifar
Nokkrir einstaklingar hafa fengið stöðu grunaðra í rannsókn sérstaks saksóknara bankahrunsins. Menn hafa þegar verið kallaðir inn til yfirheyrslu. Tugir mála eru til rannsóknar hjá saksóknaranum og Fjármálaeftirlitinu.

Ekki er langt síðan málin byrjuðu að komast á skrið hjá embætti sérstaks saksóknara bankahrunsins. En eftir að ný ríkisstjórn tók við var ákveðið að styrkja embættið með frekari fjárframlögum. Þá var tilkynnt að Eva Joly ætti að vera embættiniu innan handar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru nokkur mál komin vel á skrið hjá embættinu. Þar verjast menn hinsvegar allra frétta og segja ekkert upphátt. Eftir því sem næst verður komist hafa nokkrir, eins og það er orðað, fengið stöðu grunaðra og sumir þegar verið yfirheyrðir. Enginn mun hafa verið handtekinn, í hefðbundnum skilningi orðsins, en menn hafa mætt sjálfviljugir til yfirheyrslna.

Ekki hafa þó fengist neinar upplýsingar um hvers eðlis þessi mál eru, sem hinir grunuðu tengjast, enn fremur ekki hvort þar séu á ferð smáfiskar eða stórlaxar.Þau mál sem eru nú til skoðunar hjá embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitisins hlaupa á nokkrum tugum.

Fjölmargir heimildarmenn hafa gefið sig fram við embættið og margir komið í viðtöl til að veita upplýsingar. Hald hefur verið lagt á gögn í einhverjum málanna og skýrslutökur hafnar. Upplýsingarnar eru afar viðkvæmar og rannsóknarhagsmunir stórir og því þegja menn þunnu hljóði um starfið sem fer fram.

Umdeildir risastyrkir til stjórnmálaflokka eru ekki til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara bankahrunsins. Kæra hefur borist efnahagsbrotadeild ríkislögrelgustjórans. Ekki er útilokað að málið verði tekið til rannsóknar þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×