Erlent

ESB yfirtekur ekki olíu- og gasframleiðslu Breta og Hollendinga

Evrópusambandið segir það alrangt að yfirtaka eigi olíu- og gasframleiðslu Breta og Hollendinga. Í grein í breska blaðinu Daily Express í gær sagði að Evrópusambandið ætlaði að yfirtaka olíu- og gasframleiðslu Breta og Hollendinga í samræmi við leynilega valdheimild sem hefði verið skrifuð inn í Lissabon sáttmálann.

Percy Westerlund, sendiherra og yfirmaður fastnanefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi, segir þetta alrangt. Ekkert sé rétt í fréttinni. Hann segir fréttina byggða á fréttatilkynningu breska Sjálfstæðisflokksins sem sé langt til hægri og á móti Evrópusambandinu.

Westerlund segir ESB ekki geta farið þannig þvert á vilja aðildarríkis. Ekkert í Lissabon sáttmálanum leyfi það og auk þess sé það ekki vilji sambandsins. Einvörðungu sé verið að reyna að bæta það leiðslukerfi fyrir gas sem liggur um ESB ríki til að auðvelda sölu milli ríkja. Þannig fáist betri yfirsýn yfir hve mikið gas sé að fá sem verði gagnlegt í deilum líkum þeim sem nú sé í gangi milli Rússa og Úkraínumanna. Hún er enn óleyst og ekkert rússagas til húshitunar víða í álfunni.














Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×