Innlent

Framsóknarmenn vilja nýjar viðræður

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi framsóknarmanna í fjárlaganefnd.
Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi framsóknarmanna í fjárlaganefnd. Mynd/Valgarður Gíslason
Framsóknarflokkurinn vill að frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave verði vísað frá Alþingi og að ríkisstjórnin hefji viðræður við yfirvöld í Bretlandi og Hollandi um nýtt samkomulag.

Þingfundur hófst klukkan níu í morgun með því að Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, mælti fyrir meirihlutaáliti fjárlaganefndar um ríkisábyrgðina. 26 eru á mælendaskrá en gert er ráð fyrir að málið verði samþykkt á Alþingi um helgina.

Fyrir liggja þrjú álit úr fjárlaganefnd. Að meirihlutaálitinu standa stjórnarflokkarnir auk Borgarahreyfingarinnar. Þá standa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd að sérálitum.

Í frávísunartillögu Höskulds Þórhallssonar, fulltrúa framsóknarmanna í fjárlaganefnd, segir að mörg álitaefni og gallar séu á málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar við þinglega meðferð málsins. Samningarnir séu ekki í samræmi við umboð Alþingis frá 5. desember 2008 sem „kvað á um að mál skyldu leidd til lykta á grundvelli hinna umsömdu viðmiða, Brussel-viðmiðanna svokölluðu."

Guðbjartur sagði að fyrirvararnir sem samþykktir voru í fjárlaganefnd um síðustu helgi séu skýrir og afdráttarlausir. Hann kvaðst ekki eiga von á því að kallað verði til nýrra samningaviðræðna við Hollendinga og Breta.

Jafnframt fullyrti Guðbjartur að frumvarpið sé nauðsynlegur liður í uppbyggingu landsins.


Tengdar fréttir

Icesave rætt á Alþingi

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, mælti fyrir meirihlutaáliti fjárlaganefndar um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta þegar þingfundur hófst klukkan níu í morgun. Gert er ráð fyrir að málið verði samþykkt á Alþingi um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×