Fótbolti

FIFA kemur í veg fyrir sölu á fölsuðum miðum á HM

Ómar Þorgeirsson skrifar
Englendingar eru þegar búnir að tryggja sér farseðilinn á lokakeppnina og búist er við því að stuðningsmenn þeirra muni fjölmenna til Suður-Afríku.
Englendingar eru þegar búnir að tryggja sér farseðilinn á lokakeppnina og búist er við því að stuðningsmenn þeirra muni fjölmenna til Suður-Afríku. Nordic photos/AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur í samstarfi við New Scotland Yard lögregludeildina í Lundúnum náð að loka fyrir sölu á fölsuðum miðum á lokakeppni HM 2010 í Suður-Afríku.

Búist er við því að um hálf milljón stuðningsmanna frá þrjátíu og tveimur löndum muni gera sér ferð á lokakeppnina og því hefur FIFA miklar áhyggjur af fölsunum á miðum og hefur unnið hörðum höndum í því að uppræta slíka starfsemi.

Talið er að FIFA og New Scotland Yard hafi þegar náð að loka í kringum hundrað vefsíðum sem seldu falsaða miða og þannig líklega bjargað þúsundum stuðningsmanna frá því að verða fórnarlömb svikahrappa.

„Vinna okkar með New Scotland Yard sýnir og sannar hversu alvarlega við lítum á málið. Við getum ekki setið hjá og horft á alvöru stuðningsmenn svikna og rænda þeirri frábæru reynslu að vera á lokakeppni HM," segir aðalritari FIFA Jérome Valcke.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×