Innlent

Ástæða til að kanna hvort fleiri starfsmenn Stjórnarráðsins séu ráðnir ólöglega

Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins.
Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins.

„Ég tel víst að Umboðsmaður sé með auga á þessum tímabundnu ráðningum og það kæmi mér ekki á óvart ef það ætti eftir að koma eitthvað fleira í ljós varðandi þær," segir Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins.

Valgerður spurði forsætisráðherra að því fyrir jól hversu margir starfsmenn Stjórnarráðsins hefðu væru ráðnir tímabundið í störf sín. Í svari ráðherra kom fram að þessar ráðningar skiptu tugum. Einn þeirra sem var ráðinn tímabundið er Björn Rúnar Guðmundsson. Hann var settur í embætti skrifstofustjóra á nýrri Efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu ráðuneytisins þann 1. nóvember síðastliðinn. Starfið var ekki auglýst og komst Umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu, í áliti sem gert var opinbert í síðustu viku, að ráðningin væri ólögmæt.

Fjörtíu starfsmenn eru tímabundið ráðnir hjá Stjórnarráðinu, samkvæmt svari forsætisráðherra við fyrirspurn Valgerðar. Valgerður segist ekki þora að fullyrða neitt um það hvort hið sama eigi við um þær og ráðningu Björns Rúnars. „En það sem kom mér á óvart var hvað það er stór hópur sem fær tímabundnar ráðningar," segir Valgerður í samtali við Vísi.

Hún segir að sér sýnist málið vera þannig vaxið að það sé ástæða til að fylgja því frekar eftir. Hún hyggst því taka málið upp aftur á vorþingi og fá þá upplýsingar um það hvort þær stöður sem var tímabundið ráðið í hafi verið auglýstar og hvaða einstaklingar hafi verið ráðnir í störfin. Valgerður segist jafnframt treysta Umboðsmanni til að fylgjast með þessu máli.


















Tengdar fréttir

Ráðning skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu ólögleg

Forsætisráðuneytinu var óheimilt að setja Björn Rúnar Guðmundsson í embætti skrifstofustjóra á nýrri efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu ráðuneytisins frá 1. Nóvember síðastliðnum, án þess að auglýsa starfið fyrst. Þetta kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×