Erlent

Hröð bráðnun hækkar í sjó

Níutíu prósent alls jökulíss á jörðinni er á Suðurskautinu. fréttablaðið/AP
Níutíu prósent alls jökulíss á jörðinni er á Suðurskautinu. fréttablaðið/AP

Jöklar Suðurskautslandsins eru að bráðna hraðar en áður var talið og það gæti leitt til meiri hækkunar sjávarborðs í heiminum en spáð hefur verið.

Þetta fengu umhverfisráðherrar á annars tugs landa, þar á meðal Rússlands, Bandaríkjanna og Kína, að heyra á fundi með vísindamönnum í norsku rannsóknastöðinni Troll á Suðurskautslandinu. Í skýrslu fjölþjóðlegs hóps vísindamanna sem stundað hefur rannsóknir í tilefni af Heimskautaárinu 2007-2008 segir, að veðurfar á öllum vesturhluta Suðurskautslandsins sé að hlýna, ekki aðeins Suðurskautsnesið sem gengur í norður í átt að suðurodda Suður-Ameríku.

„Þetta er óvenjulegt og óvænt,“ segir Colin Summerhayes, framkvæmdastjóri hinnar fjölþjóðlegu vísindanefndar um Suðurskautsrannsóknir um niðurstöður úr rannsóknum á gervihnattamyndum af syðstu heimsálfunni freðnu.

Níutíu prósent alls jökulíss á jörðinni er að finna á Suðurskautslandinu. Hraðari bráðnun gæti því breytt miklu um spár um hækkun sjávarmáls vegna loftslagshlýnunar. Margt er enn á huldu um tengsl gróðurhúsaáhrifanna og afdrifa Suðurskautsíssins. Enda slepptu loftslagssérfræðingar SÞ í IPCC-nefndinni því í síðustu skýrslu sinni að taka útreikninga um bráðnun íss þar og á Grænlandi með í reikninginn, vegna þess hve þeir voru miklum óvissuþáttum undirorpnir. - aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×