Innlent

„Við erum komin aftur til Íslands“

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson minntist óeirðanna við Alþingishúsið í ræðu sinni á þingi BSRB. Mynd/ Anton.
Ögmundur Jónasson minntist óeirðanna við Alþingishúsið í ræðu sinni á þingi BSRB. Mynd/ Anton.
„Við eigum að horfast í augu við það að í þjóðfélaginu ríkir togstreita," sagði Ögmundur Jónasson, fráfarandi formaður BSRB, við setningu 42. þings sambandsins í dag. Það væri hlutverk aðila innan BSRB að toga fyrir þá sem standa höllum fæti gagnvart fjármagni og valdi. „Það breytir því ekki að togstreytunni á jafnan að beina í eins jákvæðan og uppbyggilegan farveg og kostur er. Ég vil að við séum sem ein fjölskylda. En þá verðum við líka að vera það í reynd," sagði Ögmundur.

Og Ögmundur minntist á atburðina við Alþingishúsið þegar eldar loguðu í upphafi árs. „Ég minnist þess eitt örlagakvöldið að ég var í beinni útsendingu í sjónvarpi. Hrópin heyrðust að utan. Eggjum var hent í rúður þinghússins. Svo kom grjótið. Hönd fréttakonunnar sem hélt um hljóðnemann titraði.

Og Ögmundur hélt áfram „Loft var lævi blandið. Að loknu viðtalinu gekk ég að glugga sem veit út á Austurvöllinn. Við hlið mér stóð öryggisvörður, félagi minn í BSRB. Fyrri neðan okkur voru lögreglumenn með hjálma og skildi - og tárags. Því hafði verið beitt kvöldið áður. Allir í viðbragðsstöðu. En þegar grjótkastið tók að beinast að lögreglumönnunum - þá gerðist það. Hópur fólks tók sig út úr mannfjöldanum og myndaði mannlegan varnarmúr frammi fyrir lögreglunni. Hið ósagða lá í augum upp. Sá sem grýtir lögregluna grýtir mig. Lögreglumennirnir lögðu skildina frá sér. Ég gleymi því aldrei þegar félagi minn við gluggann - öryggisvörðurinn - sagði og ég heyrði klökkvann í röddinni: Guði sér lof. Við erum komin aftur til Íslands."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×