Innlent

Þetta er mannréttindabrot

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir

„Að láta dæmda brotamenn bíða eftir að geta afplánað refsingu svo árum skiptir, er ekkert annað en mannréttindabrot."

Þetta segir Vigdís Hauksdóttir alþingis­maður, fulltrúi framsóknarmanna í allsherjarnefnd Alþingis. Hún hefur farið fram á fund í nefndinni vegna stöðunnar í fangelsismálum. Formaður nefndarinnar hefur ákveðið að verða við beiðninni og mun fundurinn verða haldinn síðar í vikunni. Þangað verða kvaddir fulltrúar frá Fangelsismálastofnun og fangelsunum sjálfum.

„Ég vænti þess að við getum farið yfir stöðuna með fulltrúum fangelsismála og fengið mynd af því hver staðan nákvæmlega er," segir Vigdís.

Hún kveðst ekki hafa áhyggjur af því að ekki finnist húsnæði sem hægt sé að leigja undir fangapláss. Hún hafi frekar áhyggjur af því að fá starfsmenn í það viðbótarhúsnæði fyrir fangelsin. Einhvern veginn verði að finna úrræði til að stytta biðlistann því þegar menn hafi hlotið dóm verði þeir að fá að afplána hann sem fyrst. Aðstæður manna geti breyst til betri vegar frá því að þeir voru dæmdir. Þá sé þeim allt í einu kippt út úr daglega lífinu til að taka út gamlan dóm.

„Þessi mál eru komin í algjört óefni og fjármagn bráðvantar til fangelsismála," segir Vigdís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×