Íslenski boltinn

Hannes: Doði yfir okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Halldórsson átti stórleik í marki Fram í kvöld.
Hannes Halldórsson átti stórleik í marki Fram í kvöld. Mynd/Anton
Hannes Þór Halldórsson átti stórleik í marki Fram í kvöld en náði ekki að koma í veg fyrir 2-0 sigur FH á Laugardalsvellinum.

Hannes hélt þó marki Fram hreinu í fyrri hálfleik en alls varði hann tólf skot í leiknum - mörg hver glæsilega.

„Við vorum ljónheppnir að vera ekki undir í hálfleik en mér finnst að það hefði átt að vera vendipunktur fyrir okkur. Við ætluðum að koma brjálaðir út í seinni hálfleikinn og snúa þessu við en svo fáum við á okkur þessi tvö mörk sem er bara lélegt. Við vorum ekki nálægt mönnum. Þetta var bara dapurt."

„Það var vissulega nóg að gera í fyrri hálfleik sem var annars nokkuð hörmulegur af okkar hálfu. Ég reyni að vera fyrir þessu eins mikið og ég get en svo sleppi ég tveimur inn sem ég er ekki ánægður með. Ég er þó sáttur við heildarframmistöðuna og þá sérstaklega fyrri hálfleikinn."

„Það var þó hálfgerður doði yfir okkur allan leikinn þó svo að við náðum aðeins að komast í gang undir lokin."

Fram náði þar með ekki að fylgja eftir góðum 3-0 sigri á KR í síðustu umferð. „Þá náðum við loksins að sýna okkar rétta andlit en við álítum sem svo að við eigum að vera í hópi fimm efstu liða deildarinnar. En þetta var eins og svart og hvítt hjá okkur samanborið við síðasta leik og nú þurfum við að skoða hvað það er sem veldur því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×