Innlent

Brennisteinsvetni mælist yfir mörkum

Í nýjum virkjunum Orkuveitunnar verður mengunarbúnaður sem minnkar útstreymi brennisteinsvetnis um 90 prósent.fréttablaðið/gva
Í nýjum virkjunum Orkuveitunnar verður mengunarbúnaður sem minnkar útstreymi brennisteinsvetnis um 90 prósent.fréttablaðið/gva

Hæstu toppar brennisteinsvetnismengunar í Hveragerði fara yfir heilsuverndarviðmið Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), en sólarhringsmeðaltal er töluvert undir þeim viðmiðum. Þetta kemur fram í mælingum Umhverfisstofnunar. Engin viðmið eru til hér á landi um þessa mengun, en þau eru í vinnslu í umhverfisráðuneytinu.

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá stofnuninni, segir tilgangslaust að horfa til vinnuverndarmarka í þessu sjónarmiði, en Orkuveita Reykjavíkur miðar við þau í frétt á heimasíðu sinni sem rataði í fjölmiðla um helgina.

„Vinnuverndarmörkin eiga ekkert erindi í þessa umræðu,“ segir Þorsteinn.

Ástæðan sé sú að vinnuverndarmörk verndi ekki heilsu þeirra sem eru viðkvæmir fyrir og gilda aðeins á vinnustöðum. Þau miði jafnvel við að grípa þurfi til ryk- og gasgríma og séu oft 100 sinnum hærri en þau sem gildi fyrir almenning.

Þorsteinn segir brennisteinsvetnismengun í Reykjavík hafa aukist með tilkomu virkjana Orkuveitunnar á Hellisheiði. Fólk, sérstaklega í austurborginni, geti fundið fyrir ógleði og höfuðverkjum vegna hennar, sérstaklega í froststillum. Mælingar í Hveragerði eru nýhafnar og því ekki til samanburðartölur yfir vetrartímann.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×