Erlent

Steve Jobs í hálfs árs veikindaleyfi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP/Paul Sakuma

Steve Jobs, forstjóri hugbúnaðarrisans Apple, er kominn í veikindaleyfi til júníloka en heilsubrestur hans virðist alvarlegri en talið var í fyrstu.

Hún má vera skæð sóttin sem teygir anga sína alla leið inn í kauphallir heimsins en hlutabréf í Apple féllu um ein 9,8 prósent þegar tilkynnt var um veikindaleyfi forstjórans. Sennilega eru áhyggjur fjárfesta ekki rökleysa með öllu, Jobs lifði af krabbamein í brisi á dögunum og hefur verið undir ofurpressu í sókn Apple síðustu misseri, tók þar nýi iPhone-síminn sinn toll auk annarra tækninýjunga sem eiga í harðri baráttu við samkeppnisaðila á borð við Samsung, LG og Nokia.

Aðdáendur Apple rak í rogastans þegar í ljós kom að markaðsstjóri Apple flutti ávarp á tæknisýningu fyrirtækisins í stað Steve Jobs en ávarp hans á sýningunni hefur gengið næst helgidómi síðustu ár. Tímasetning veikindanna þykir afar óheppileg fyrir Apple en fyrstu dagar ársins fóru nánast alfarið í að sannfæra fjárfesta um að Jobs væri við hestaheilsu þrátt fyrir áleitinn orðróm um annað.

Spyrjum að leikslokum en ljóst er að rekstrarstjóri Apple, Tim Cook, mun leysa Jobs af hólmi þar til honum vex ásmegin á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×