Íslenski boltinn

Kristján Guðmundsson: Lasse kom okkur aftur inn í þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, er eini þjálfarinn í Pepsi-deild karla sem hefur náð að stoppa Íslandsmeistarana í FH. Keflavík tryggði sér 2-2 jafntefli á móti FH í Kaplakrika í dag og hefur því tekið fjögur stig út úr tveimur leikjum á móti FH í sumar.

„Það er styrkleikamerki að hafa náð að taka fjögur stig af FH í sumar. Við erum mjög ánægðir með að hafa tekið stig hérna á þessum erfiða útivelli þar sem þeir höfðu unnið alla sína leiki. Þetta þýðir jafnframt það að við þurfum að fylgja þessu eftir í næsta leik og í næsta leik þar á eftir. Við þurfum að mæta með sama hugarfar og ætla okkur að ná í stigin," sagði Kristján eftir leikinn í dag.

Keflavík komst í 1-0 en FH svaraði með tveimur skallamörkum eftir hornspyrnur og fékk síðan víti sem hefði gulltryggt sigurinn. Lasse Jörgensen, markvörður Keflavíkur, varði hinsvegar vítið og Magnús Þorsteinsson tryggði Keflavík jafntefli í lokin.

„1-0 forusta er aldrei nóg á móti FH og við vorum að vona að við gætum lætt inn einu marki í upphafi seinni hálfleiks. Það tókst ekki en Lasse markmaður kom okkur aftur inn í þetta með því að verja vítið og það var hvatningin sem framherjarnir okkar þurftu til þess að jafna leikinn," segir Kristján. Hann var sáttur með þróun leiksins.

„Við spiluðum leikinn nokkurn veginn eftir því sem við höfðum ákveðið. Við vorum þolinmóðir í byrjun því okkur grunaði að FH-ingarnir kæmu dýrvitlausir í þennan leik. Þeir ætluðu bæði að ná í þrjú stig af því að þeir töpuðu fyrir okkur í fyrsta leiknum og vildu þeir sýna fólkinu að það væri lífsmark með þeim eftir miðvikudagsleikinn. Þetta gekk alveg ágætlega þótt þeir hafi oft verið nálægt því í hornum og aukaspyrnum að setja á okkur mark," sagði Kristján en er mótið búið?

„Mótið er ekki búið og ég held að FH-ingar geri sér alveg fullkomlega grein fyrir því. Það getur alveg vel verið að fleiri lið fylgi í kjölfarið, taki af þeim stig og geri þetta svolítið spennandi á toppnum undir lokin," sagði Kristján að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×