Innlent

Borgarráð hættir við mislægu gatnamótin

Dagur B. Eggertsson fagnar ákvörðun Borgarráðs.
Dagur B. Eggertsson fagnar ákvörðun Borgarráðs.

Borgarráð staðfesti á fundi sínum í dag að horfið hefur verið frá þriggja hæða mislægum gatnamótum við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. „Þessi gamla hugmynd hefur nú verið slegin út af borðinu," segir Dagur B. Eggertsson í tilkynningu.

Dagur bendir á að þriggja hæða mislæg gatnamót hafi verið eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum. „Borgarráð var með ákvörðun sinni að staðfesta niðurstöðu samráðshóps um umferðarmál á gatnamótunum en hann var settur á fót á síðasta ári að tillögu Samfylkingarinnar."

Að sögn Dags náði hópurinn, eftir að hafa farið yfir umferðartölur og önnur gögn, samstöðu um að í stað mislægra gatnamóta á þremur hæðum yrði Miklabraut lögð í stokk en núverandi gatnamót héldu sér að öðru leyti.

Útfærsla þessa efnis var lögð fram í samráðshópnum af fulltrúum íbúasamtaka Hlíðahverfis.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðshópnum var Stefán Benediktsson varaborgarfulltrúi og arkitekt. Sameiginleg bókun borgarráðs var svohljóðandi:

„Borgarráð fagnar niðurstöðu starfshópsins og þeirri lausn sem þar er kynnt vegna framkvæmda við Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Borgarráð þakkar starfshópnum góð störf og þá samstöðu sem nú hefur, með þverpólitísku samráði og öflugri aðkomu íbúasamtaka, verið tryggð um þetta brýna hagsmunamál borgarbúa."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×