Innlent

Einblína á Helguvík og líta framhjá öðru

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir

„Við höfum alls ekki dregið lappirnar í atvinnuuppbyggingunni. Aðilar að stöðugleikasáttmálanum hafa hins vegar einblínt á Helguvík og halda að hún sé alfa og omega í allri atvinnuuppbyggingu."

Þetta segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. Hún furðar sig á að aðilar vinnumarkaðarins leggi allt kapp á að gagnrýna að eitt stórt verkefni gangi eins og það gengur. Þeir láti eins og þeir viti ekki af þeim fjölmörgu verkefnum sem ríkisstjórnin hafi þegar ráðist í eða vinni að atvinnuuppbyggingu til handa. Hún gagnrýnir líka sinnuleysi fjölmiðla.

„Orkufrekar stórframkvæmdir eru augljóslega mjög frekar á athygli fjölmiðlamanna, stjórnmálamanna og aðila vinnumarkaðarins en ég tel kominn tíma til að við beinum kastljósinu að allri uppbyggingunni sem raunverulega er að eiga sér stað," segir Katrín í viðtali í blaðinu í dag um stóriðjumál, atvinnumál og fleira.

Hún segir að samfélagið megi ekki færast frá því að vera háð fiski í að vera háð áli. Næstu skref í atvinnumálum eiga að byggja á fjölbreytni og leggur hún áherslu á það sem kallað er græna stoðin, fjölbreyttan hátækniiðnað. Þá telur hún mikla möguleika felast í ferðaþjónustu og nýsköpun.

Álverin skili engu að síður dýrmætum störfum og gjaldeyri og nýsköpun þeim tengd, með framleiðslu úr áli, sé raunhæf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×