Innlent

Krefst rannsóknar á kúasæðingu Audda

Magnús Már Guðmundsson skrifar
„Sælusvipur á beljunni þegar Auddi Blö sæddi hana," var fyrirsögn fréttarinnar um nýlega ferð Sveppa og Audda í Hrútafjörð.
„Sælusvipur á beljunni þegar Auddi Blö sæddi hana," var fyrirsögn fréttarinnar um nýlega ferð Sveppa og Audda í Hrútafjörð.

Dýralæknafélag Íslands krefst rannsóknar á kúasæðingu Auðuns Blöndal sem fjallað var um í Fréttablaðinu í dag. „Þeir eru að gera eitthvað sem leikmenn mega ekki gera og þetta er niðurlægjandi fyrir dýrið. Tiltækið er fámunalega ósmekklegt og það er spurning hvort þetta sé ekki dýraverndarmál," segir Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður Dýralæknafélag Íslands, sem er allt annað en sátt með framgöngu sjónvarpmannanna Auðuns Blöndal og Sverris Þór Sverrissonar, betur þekktir sem Auddi og Sveppi.

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um nýlega ferð þeirra á bæinn Tannstaðabakka í Hrútafirði þar sem þeir kynntu sér líf íslenskra bænda. Meðal þess sem þeir tóku sér fyrir hendur var að sæða kú. Afrakstur ferðarinnar verður sýndur síðar í vikulegum sjónvarpsþætti Audda og Sveppa á Stöð 2.

Guðbjörg segir að fréttin hafi vakið hörð viðbrögð og fjölmargir haft samband við skrifstofu Dýralæknafélagsins. Í tilkynningu frá félaginu er lýst yfir vanþóknun með fréttina og myndbirtinguna í Fréttablaðinu.

„Í þessu sambandi vekur Dýralæknafélag Íslands athygli á að um sæðingar nautgripa og annarra dýra gilda ákveðin lög og reglur er varða dýravernd og fagþekkingu frjótækna. Dýralæknafélag Íslands mælist til þess að umrætt atvik verði rannsakað af þær til bærum yfirvöldum," segir að lokum í tilkynningu félagsins.

Guðbjörg segir að Dýralæknafélagið ætli að biðla til yfirstjórnar Stöðvar 2 að umrætt atriði verði ekki sýnt í þætti þeirra Audda og Sveppa.

Frétt Fréttablaðsins er hægt að nálgast hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Sælusvipur á beljunni þegar Auddi Blö sæddi hana

„Þetta er alveg á pari við kúa­mykjuna sem við köfuðum ofan í í Húsdýragarðinum hérna um árið,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, sjónvarpsmaður og kvikmyndastjarna. Hann fór ásamt félaga sínum, Auðuni Blöndal, á bæinn Tannstaðabakka í Hrútafirðinum og kynnti sér hvernig daglegt líf íslenskra bænda fer fram. Afraksturinn verður sýndur í þætti þeirra en hápunkturinn var eflaust þegar Auðunn og Sverrir fengu að sæða belju. „Þetta er mjög sérstakt ferli, mennirnir sem eru að vinna í þessu dags daglega eru eldsnöggir og fyrir þá er þetta náttúrlega ekkert mál.“ Sama verður ekki sagt um borgarbörnin þótt sjónvarpsmennirnir tveir hafi borið sig nokkuð vel miðað við aðstæður. Sverrir útskýrir að menn þurfi að ganga í skugga um að endaþarmur beljunnar sé alveg hreinn. „Þú ferð með hendina alveg inn og þarft að kafa nokkuð djúpt,“ segir Sverrir og bætir því við að beljan hafi sýnt Auðuni nokkurn áhuga. „Eina skiptið sem beljan sýndi sælusvip var þegar Auðunn gerði þetta. Hann kom sjálfum sér annars nokkuð á óvart því hann er nú þekktur fyrir að vera ekkert mikið fyrir ógeðslega hluti en kláraði þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×