Innlent

Ísland enn í hópi tíu bestu

Sylvia Schenk, formaður Transparency International, kynnir nýja spillingarlistann á blaðamannafundi í Berlín.nordicphotos/AFP
Sylvia Schenk, formaður Transparency International, kynnir nýja spillingarlistann á blaðamannafundi í Berlín.nordicphotos/AFP

Ísland er enn í hópi tíu efstu ríkjanna á lista samtakanna Transparency International yfir spillingarstig ríkja heims.

Samkvæmt nýja listanum er spillingin minnst á Nýja-Sjálandi, í Danmörku, Singapúr, Svíþjóð og Sviss, en mest er hún í Sómalíu, Afganistan, Búrma, Súdan og Írak.

Í skýrslu samtakanna eru auðug ríki hvött til þess að breyta reglum um bankaleynd svo þær gagnist ekki spillingaröflum sem vilja halda viðskiptum sínum leyndum.

Ísland er í áttunda sæti ásamt Ástralíu og Kanada. Þessi þrjú lönd fengu 8,7 stig á kvarða sem mælir spillingu á bilinu frá núll og upp í tíu.

„Ekkert ríki heims er ónæmt gagnvart hættunni á spillingu,“ segir í skýrslu samtakanna, sem árlega hafa tekið saman lista yfir spillingu í ríkjum heims.

Listinn er byggður á þrettán skoðanakönnunum sem tíu stofnanir hafa gert og birt síðustu tvö árin. Sérfræðingar alþjóðastofnana og framámenn í viðskiptum í hverju landi eru spurðir hvort þeir telji spillingu vera í opinbera geiranum, einkum hvort opinberar stofnanir og embættismenn taki við fé til að tryggja þjónustu, forgang eða sérafgreiðslu mála.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×