Innlent

Allir grunnskólanemendur komnir með skólavist

katrín jakobsdóttir segir að verið sé að skoða allt innritunarferlið. fréttablaðið/anton
katrín jakobsdóttir segir að verið sé að skoða allt innritunarferlið. fréttablaðið/anton

„Allir sem eru að koma úr grunnskóla eru komnir með pláss,“ segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Mikil aðsókn var í framhaldsskóla í ár og var mörgum hafnað. Katrín segir marga þó ekki sátta við þann skóla sem þeir komust í.

Næst á dagskrá er að skoða aldurshópinn 16 til 18 ára, að sögn Katrínar. Þar eru tæplega tvöhundruð manns sem hafa verið í öðrum skólum eða eru að innrita sig nú fyrst. Enn er það í vinnslu. Hópurinn 18 til 20 ára kemur svo til skoðunar og eftir það eldri en 20 ára.

„Þetta er ákveðin forgangsröðun sem við erum að fylgja. Það er líklegt að einhverjir úr elsta hópnum muni ekki fá inngöngu,“ segir Katrín en önnur úrræði verða skoðuð fyrir þá sem ekki fá pláss.

Aðspurð hvort gagnrýni á skort á samræmdum prófum þetta árið og hækkandi skólaeinkunnir sé réttmæt segir Katrín að verið sé að skoða allt innritunarferlið.

„Við erum að taka saman upplýsingar um hvort það hafi orðið hækkun á einkunnum. Í framhaldi af því munum við skoða hvort skilgreina megi skólaeinkunnir betur, hvað felast eigi í þeim.“

Samræmd próf verða haldin næsta haust en eingöngu verður um tölfræðileg könnunarpróf að ræða, eins konar stöðumat. „Verið er að skoða hvort tekið verði tillit til samræmdra prófa samhliða skólaeinkunn við umsóknarferlið,“ segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×