Lífið

Yfirheyrður af lögreglu vegna tölvupósts

Eftir því sem næst verður komist er hann fyrstur til að vera handtekinn og yfirheyrður vegna netskrifa.
Eftir því sem næst verður komist er hann fyrstur til að vera handtekinn og yfirheyrður vegna netskrifa.

„Ég tók smá kast á netinu. Á til að vera gífuryrtur. Var svo handtekinn og yfirheyrður því ég þótti ógn við ráðamenn," segir Þorri Jóhannsson, skáld með meiru.

Í gærmorgun bönkuðu tveir lögregluþjónar upp á hjá Þorra og höfðu hann með sér til yfirheyrslu. Tilefnið var tölvupóstur sem Þorri hafði reynt að birta á athugasemdakerfi á bloggsíðu Friðriks Þórs Guðmundssonar - lillo.blog.is, en þegar það ekki tókst sendi hann skrif sín í tölvupósti. Friðriki var brugðið og gerði Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra viðvart. „Ég leit svo á að þarna væru hótanir í garð einstaklinga og stofnana í samfélaginu auk þess sem ég taldi skrifin beinast gegn mér," segir Friðrik sem fól Stefáni að meta hvort ástæða væri til að aðhafast í málinu.

Skrifin eru ógnandi en Friðrik birtir þau á síðu sinni:

„StóriðjuÖssur fær ekki að lifa til vors…" og svo framvegis. Forvitnum er bent á síðu Friðriks.

Þorri segir þetta upplifun og dregur ekki úr því að hafa verið heitt í hamsi enda umbrotatímar. Hann segist hafa lesið síðu Friðriks, „þessa grunnhyggna snáps úr Samfylkingunni sem taldi allt batna með að ríkisstjórnin færi. Alltaf verið að blása upp að steinum sé hent í lögguna eins og ekki sé neinn aðdragandi," segir anarkistinn Þorri. Sem var látinn dúsa í klefa í tvo tíma án þess að fá að fara á salerni né fá vott eða þurrt. „Svo ræddi ég við lögregluna, sagði þetta spámannlegan texta og vísaði í söguna þar sem byltingin getur orðið blóðug.

Þetta er þroskaferli í sögu þjóðarinnar eftir siðleysi og efnishyggju." Þorri rambar á milli þess að vera upp með sér, segist aldrei hafa áður fengið slík viðbrögð við skrifum sínum og að vera tættur eftir yfirheyrsluna þaðan sem honum var sleppt við svo búið. Og óljóst á þessari stundu hvar málið endar.- jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.