Erlent

Ólga á N-Írlandi

Þjóðernissinnaðir Írar fleygðu bensínsprengjum og grjóti í lögregluna í gær eftir að þrír menn úr klofningshópi frá Írska lýðveldishernum voru handteknir fyrir morðin á tveim breskum hermönnum.

Ofstækismenn úr tveim klofningshópum frá Írska lýðveldishernum myrtu í síðustu viku annarsvegar tvo breska hermenn og hinsvegar írskan lögreglumann.

Báðir hóparnir hafa gefið út yfirlýsingar um að þeir muni ekki hætta árásum á lögreglu- og hermenn meðan Bretar hafi einhver minnstu umsvif á Norður-Írlandi.

Stjórnmálaleiðtogar bæði kaþólikka og mótmælenda hafa fordæmt morðin og þúsundir manna úr báðum trúarhópunum hafa farið í mótmælagöngur vegna þeirra.

Þrír hafa verið handteknir vegna morðanna á hermönnunum og þrír til viðbótar vegna morðsins á lögreglumanninum. Bæði kaþólikkar og mótmælendur hafa lagt blóm við báða morðstaðina.

Írski lýðveldisherinn lagði niður vopn eftir friðarsamninga árið 2005.

Síðan hefur verið ró í landinu.

Morðin koma því mjög illa við írskan almenning sem vill ekkert frekar en að fá að lifa í friði og sátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×