Innlent

Eigandinn mætti þjófnum á rúntinum og lét lögreglu vita

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Bíll Sigurðar var áþekkur þessum.
Bíll Sigurðar var áþekkur þessum.

Sigurður Ingólfsson, eigandi Toyota Yaris bifreiðarinnar sem lögregla veitti eftirför í kvöld, mætti bílnum á Seljabraut í Breiðholti og lét lögreglu vita. Þegar þjófurinn varð var við að sér væri veitt eftirför setti hann allt í botn.

„Ég fékk lánaðan bíl og ákvað að fara að svipast um eftir bílnum. Svo þegar ég var að aka Seljabrautina mætti ég bílnum á rúntinum," segir Sigurður sem ákvað þá að veita bílnum rólega eftirför. „Ég keyrði á eftir honum framhjá Select bensínstöðinni í Breiðholti. Svo þegar við erum að nálgast Vesturbergið þá tekur hann eftir mér og setur allt í botn og stendur bílinn út Vesturbergið," segir Sigurður sem sá lögreglubíl við hinn enda Vesturbergsins og ákvað því að láta þar við sitja og setja málin í hendur lögreglu.

Sigurður segir að um tíma hafi allt Breiðholtið ómað af sírenuvæli. „Þetta fór á versta veg sem ég gat hugsað mér. Konan mín er kominn á staðinn þar sem bíllinn fór útaf. Við búum í Hvalfjarðasveit. Hún segir að bíllinn sé alveg í klessu og drengurinn á leið með sjúkrabíl. Þetta gat ekki farið verr," segir hann. Hann segir bílinn vera kaskótryggðan en annars viti hann lítið um hvernig svona mál eru meðhöndluð hjá tryggingum. „Verst er ef að menn slasast. Hitt eru bara peningar," segir hann.

Bifreiðinni var stolið við Shell bensínstöðina í Árbæ um miðjan daginn í dag. Sigurður fór þá inn á bensínstöðina til að greiða fyrir áfyllinguna en á meðan lét þjófurinn til skarar skríða. Bíllinn var því stútfullur af bensíni að sögn Sigurðar. „Hann hefði getað keyrt hann fram á morgun þess vegna," segir hann.




Tengdar fréttir

Eftirför lögreglu lauk með ákeyrslu í Hvalfirði

Eftirför sem lögregla veitti grárri Toyota Yaris bifreið lauk fyrir um tíu mínútum. Lögregla ók þá utan í bifreiðina til móts við bæinn Stóra Lambhaga í Hvalfirði með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar og ofan í skurði. Eftirförin stóð í um 45 mínútur.

Eigandi Yaris bifreiðar: „Þekki þjófinn hvar sem er“

Eigandi Toyota Yaris bifreiðar sem stolið var meðan hann borgaði fyrir bensín á Shell bensínstöðinni í Árbæ fyrr í dag, segist sjaldan hafa orðið jafn hissa á ævi sinni og þegar hann sá bíl sinn reykspóla í burtu. Hann segist mundu þekkja þjófinn hvar sem er.

Bíl stolið meðan eigandinn borgaði fyrir bensín

Fólksbíl var stolið við bensínstöð Shell við Hraunbæ um tvöleytið. Á meðan að eigandi bílsins var inni að greiða fyrir bensín fór maður inn í bílinn og ók honum á brott.

Lögregla veitir Yaris eftirför

Allavega sex lögreglubílar og að minnsta kosti eitt mótorhjól veita nú grárri Yaris bifreið eftirför á Vesturlandsvegi að sögn tveggja vegfarenda sem höfðu samband við fréttastofu. Ekki er vitað hvort um er að ræða Yaris bifreið sem stolið var í dag á Shell bensínstöð í Árbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×