Innlent

Svandís: Hátekjufólk frekar en börn

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti VG.
Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti VG.

Svandís Svavarsdóttir segir meirihlutann í Reykjavík standa vörð um hátekjufólk frekar en börn og grunnþjónustuna í borginni. Hún gagnrýnir fyrirhugaða gjaldskrárhækkun leikskólagjalda og niðurfellingu viðbótarkennslustundar grunnskólabarna í 2. til 4. bekk.

Markmiðið meirihlutans með endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009 var að hagræða um rúmlega 2,4 milljarða. Í nýlegri greinargerð fjármálaskrifstofu er gert ráð fyrir að skorið verði niður um 1.126 milljónir í launaútgjöldum og 1.243 milljónir í öðrum kostnaði.

Samsvarar 15 kennsluvikum

Svandís segir að heil kennslustund á dag í þrjú skólaárár verði tekin af grunnskólabörnum í 2. til 4. bekk. Kennslustundin er ekki lögboðin en var sett inn til að styðja börn við heimanám og hefur að sögn Svandísar víða verið notuð til almennrar kennslu. Það sé þó breytilegt eftir skólum. Svandís bendir á fyrir barn í 2. bekk samsvari niðurskurðurinn 15 kennsluvikum á næstum þremur árum. Þá er gert ráð fyrir styttri vistunartíma í frístundaheimilum á frídögum. Svandís telur að skynsamlegra hefði verið að hækka útsvarið heldur en ráðast í sársaukafullar aðgerðir eins og þessar.

Á næstu dögum verða kynnt áform um aukna gjaldtöku fyrir foreldra leikskólabarna sem dvelja á leikskólum lengur en átta klukkustundir á dag, að sögn Svandísar. „Þannig að þeir sem eru með börnin sín lengur en átta klukkustundir á dag þurfa að borga mun meira en áður."

Þá segir Svandís að 220 milljón króna niðurskurður í viðhaldi á byggingum Reykjavíkurborgar stemmi ekki við áform um að auka mannaflsfrekar framkvæmdir á vegum borgarinnar.

Í anda hægristjórnmála



Svandís segir að þessar aðgerðir stangist á við aðgerðaáætlun sem samþykkt var í borgarstjórn á seinnihluta seinasta árs. Samkvæmt henni ætlaði borgin að standa vörð um grunnþjónstuna, atvinnustigið og störf borgarstarfsmanna og hækka ekki gjaldskrár.

„Það er í anda hægristjórnmála að standa vörð um hátekjufólk heldur en grunnþjónustuna. Þannig að þetta er allt eftir bókinni," segir Svandís.


Tengdar fréttir

Laun hjá borginni skorin niður um 1,1 milljarð

Reykjavíkurborg ætlar að skera niður launakostnað sinn um 1,1 milljarð króna. Mestur er niðurskurðurinn á menntasviði en þar verður samkvæmt tillögu skorið niður um rúmlega 580 milljónir, þar af 390 milljónir í launakostnaði starfsmanna sviðsins. Tillögurnar verða afgreiddar á næsta borgarstjórnarfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×