Innlent

Laun hjá borginni skorin niður um 1,1 milljarð

Reykjavíkurborg ætlar að skera niður launakostnað sinn um 1,1 milljarð króna. Mestur er niðurskurðurinn á menntasviði en þar verður samkvæmt tillögu skorið niður um rúmlega 580 milljónir, þar af 390 milljónir í launakostnaði starfsmanna sviðsins. Tillögurnar verða afgreiddar á næsta borgarstjórnarfundi.

Endurskoðun á fjárhagsáætlun 2009 hófst í byrjun janúar og var markmiðið að hagræða um rúmlega 2,4 milljarða. Í nýlegri greinargerð fjármálaskrifstofu er gert ráð fyrir að skera 1.126 milljónir niður í launaútgjöldum og 1.243 milljónir í öðrum kostnaði.

Á ekki að hafa áhrif á grunnþjónustu borgarinnar

Á þriðja þúsund starfsmanna tók þátt í vinnu endurskoðun fjárhagsáætlunar. Markmiðið var að ná fram hagræðingu án þess að það hefði áhrif á grunnþjónustu, störf eða gjaldskrár.

Meðal annars verður skorið niður í launaútgjöldum um 390 milljónir á menntasviði, 225 milljónir á leikskólasviði, 113 milljónir á Íþrótta- og tómstundasviði og 103 milljónir á velferðarsviði.

Kennsla barna í 2.-4. bekk skorin niður

Á menntasviði verður niðurskurðinum náð með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að minnka kaup á fastri yfirvinnu almennra starfsmanna og í öðru lagi með breyttu vinnufyrirkomulagi, en innifalið í því er breyting á viðbótar kennslustund hjá börnum í 2. til 4. bekk.

Faslaunasamningar endurskoðaðir

Fastlaunsamningar verða endurskoðaðir hjá starfsmönnum leikskólasviðs. Starfsmanna- og foreldrafundir sem haldnir hafa verið á kvöldin verða færðir á dagvinnutíma.

Íþrótta- og tómstundaráð, sem meðal annars sér um rekstur frístundaheimila, mun endurskoða fastlaunasamninga starfmanna sviðsins, eftirvinna verður lækkuð og ekki verður ráðið í lausar stöður sem losna.

Fastlaunasamningum starfsfólks á velferðarsviði verður sagt upp og samið verður um nýja. Áætluð hagræðing af því eru 53 milljónir króna. Dregið verður úr mældri yfirvinnu fyrir samtals 50 milljónir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×