Innlent

Elín og Birna á sex mánaða biðlaunum

Birna Einarsdóttir og Elín Sigfúsdóttir.
Birna Einarsdóttir og Elín Sigfúsdóttir.

Ráðningarsamningar Birnu Einarsdóttur, bankastjóri Nýja Glitnis, og Elínar Sigfúsdóttur, bankastjóra Nýja Landsbankans, eru ótímabundnir og eiga þær báðar rétt á sex mánaða biðlaunum. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, var ráðinn tímabundið til sex mánuða og rennur ráðningarsamningur hans út í apríl. Þetta kom fram í Kastljósi fyrr í kvöld.

Stöður bankastjóra ríkisbankanna verða auglýstar lausar til umsóknar á næstu dögum. Þetta var ákveðið í dag. Elín ætlar ekki að sækja um stöðuna en það ætlar Finnur aftur á móti að gera. Óljóst er hvað Birna hyggst gera en ekki hefur náðst í hana í kvöld.

Þremenningarnir voru allir ráðnir til bankanna í kjölfar bankahrunsins í október. Birna og Elín voru báðar meðal stjórnenda gömlu bankanna.

Laun Finns og Birnu eru 1750 þúsund krónur á mánuði. Rétt fyrir jól voru laun Elínar lækkuð úr 1950 þúsund krónum á mánuði í 1500 þúsund. Elín neitaði að gefa upp laun sín þar til hún var boðuð á fund viðskiptanefndar Alþingis í byrjun nóvember.

Birna og Elín hafa báðar afnot af bifreiðum sem skráðar eru Nýja Glitni og Nýja Landsbankann. Það gerir Finnur ekki.










Tengdar fréttir

Bankastjórastöður ríkisbankanna auglýstar

Stöður bankastjóra ríkisbankanna verða auglýstar lausar til umsóknar á næstu dögum. Þetta var ákveðið í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar funduðu Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni M. Matthiesen fjármálaráðherra með formönnum bankaráða Landsbanka, Glitnis og Kaupþings í dag. Á fundinum mun hafa verið farið yfir starfsmannamál bankanna og ráðherrarnir tilkynnt formönnum bankaráðanna að það væri vilji ríkisvaldsins, sem eiganda bankanna, að stöður bankastjóranna yrðu auglýstar lausar til umsóknar.

Elín sækir ekki um sem bankastjóri í Nýja Landsbankanum

Elín Sigfúsdóttir, núverandi bankastjóri Nýja Landsbankans, ætlar ekki að sækja um stöðuna sem bankaráð bankans ákvað í dag að auglýsa lausa til umsóknar. Auglýsingin mun birtast á næstu dögum en Elín mun gegna stöðunni þar til nýr bankastjóri hefur verið ráðinn. Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×