Innlent

Bankastjórastöður ríkisbankanna auglýstar

Stöður bankastjóra ríkisbankanna verða auglýstar lausar til umsóknar á næstu dögum. Þetta var ákveðið í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar funduðu Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni M. Matthiesen fjármálaráðherra með formönnum bankaráða Landsbanka, Glitnis og Kaupþings í dag. Á fundinum mun hafa verið farið yfir starfsmannamál bankanna og ráðherrarnir tilkynnt formönnum bankaráðanna að það væri vilji ríkisvaldsins, sem eiganda bankanna, að stöður bankastjóranna yrðu auglýstar lausar til umsóknar.

Bankastjórarnir þrír þau Elín Sigfúsdóttir í Landsbankanum, Birna Einarsdóttir í Glitni og Finnur Sveinbjörnsson hjá Kaupþingi, voru öll ráðin af bráðabirgðastjórnum sem skipaðar voru yfir bankanna fljótlega eftir hrun bankakerfisins. En umboð þeirra var á sínum tíma takmarkað. Viðskiptaráðherra hefur áður lýst því yfir í þinginu að hann teldi eðlilegt að auglýsa stöðurnar og nú hefur hann ásamt fjármálaráðherra, sem fer með hlutabréf ríkisins í bönkunum, ákveðið að það verði gert.

Og nú rétt í þessu sagðist Finnur Sveinbjörnsson, í samtali við fréttastofu, ekki hafa heyrt af því að auglýsa ætti stöðu bankastjóra. Það kæmi honum þó ekki sérstaklega á óvart og hann ætli sér að sækja um starf bankastjóra Kaupþings. Í yfirlýsingu frá Elínu Sigfúsdóttur segir að hún muni ekki sækja um stöðuna við Landsbankann, enda alltaf litið svo á að starfið væri tímabundið. Ekki hefur náðst í Birnu Einarsdóttir.










Tengdar fréttir

Elín sækir ekki um sem bankastjóri í Nýja Landsbankanum

Elín Sigfúsdóttir, núverandi bankastjóri Nýja Landsbankans, ætlar ekki að sækja um stöðuna sem bankaráð bankans ákvað í dag að auglýsa lausa til umsóknar. Auglýsingin mun birtast á næstu dögum en Elín mun gegna stöðunni þar til nýr bankastjóri hefur verið ráðinn. Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×