Erlent

Talibanar í afgönsku lögreglunni

Óli Tynes skrifar
Talibanar hafa smeygt sér inn í  raðir afgönsku lögregelunnar.
Talibanar hafa smeygt sér inn í raðir afgönsku lögregelunnar.

Breskir hermenn sem hafa gegnt herþjónustu í Afganistan segja ófagrar sögur af afgönskum lögreglumönnum.

Einn slíkur skaut fimm breska hermenn til bana á þriðjudag þar sem þeir voru að hvíla sig í herstöð í Helmand héraði.

Breskir fjölmiðlar hafa síðan verið að tala við hermenn sem verið hafa í landinu og þeir eru sammála um að ástandið sé slæmt.

Þeir segja að lögreglumennirnir séu illa launaðir, óagaðir og oft uppdópaðir. Og það sem verra er margir þeirra séu talibanar.

Dough Beatty kafteinn í breska hernum sem þjálfaði afganska hermenn og lögreglumenn í Helmand héraði á árunum 2006 0g 2007 sagði í samtali við The Guardian að hvort sem menn vilji viðurkenna það opinberlega eða ekki hafi talibanar smeygt útsendurum sínum inn í allar deildir lögreglunnar.

Það er náttúrlega skelfileg tilhugsun hvað myndi gerast ef talibanar ákvæðu að láta alla þessa flugumenn grípa til aðgerða á sömu stundu. Það myndi skapa algera upplausn sem erfitt væri að greiða úr.

Það er ekki síst áhyggjuefni að lögreglumenn eiga greiðan aðgang að breskum herstöðvum. Þeim er sjálfkrafa hleypt þar inn.

Eftir atburði þriðjudagsins eru bresku hermennirnir að vonum tortryggnir og það kemur til með að skaða mjög samskipti þeirra við afgönsku lögregluna, einnig þá sem eru trúir í starfi sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×