Innlent

Hvetja skóla til þess að koma í veg fyrir ofbeldi gegn rauðhærðum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Landsamtök foreldra - Heimili og skóli, beinir þeim tilmælum til skólastjórnenda að vekja athygli foreldra og nemanda á því að „Kick a ginger day" framtakið, sem hefur verið boðað á Facebook, verði ekki liðið.

Um er að ræða hóp innan Facebook sem hvetur fólk til þess að sparka í rauðhærða á morgun. Dagurinn á uppruna sinn í Southpark-þætti.

Samtökin hvetja nemendur til þess að taka afstöðu gegn slíku atferli.

Í tilkynningunni segir: Að gefnu tilefni viljum við vekja athygli á að á morgun, föstudaginn 20. nóvember, hefur verið boðaður svokallaður „Kick a ginger day" á Facebook.

Í því felst að sparka megi í þá sem rauðhærðir eru og er fólk beinlínis hvatt til þess. Heimili og skóli og framkvæmdastjóri Olweusar-áætlunarinnar á Íslandi telja að með þessu háttalagi sé verið að hvetja til ofbeldis sem felur í sér niðurlægingu og virðingarleysi.

Við beinum þeim tilmælum til skólastjórnenda að vekja athygli foreldra og nemenda á því að skólinn muni ekki líða slíka háttsemi. Því mælumst við til þess að foreldrar og aðrir forráðamenn verði upplýstir í dag og gert grein fyrir hvernig skólinn muni bregðast við brotum af þessu tagi.

Jafnframt verði nemendur hvattir til að taka afstöðu gegn slíku atferli, athygli vakin á gagnkvæmri virðingu og gildi þess að nemendur sýni hver öðrum tillitsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×