Enski boltinn

Við erum eina liðið sem býr til leikmenn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Wenger er eitthvað fúll þessa dagana.
Wenger er eitthvað fúll þessa dagana. Nordic Photos/Getty Images

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er augljóslega eitthvað fúll yfir döpru gengi sinna manna í deildinni því hann hefur nú ráðist á andstæðinga sína og sakað þá um að stytta sér leið í áttina að bikurum.

Wenger segir að Arsenal sé eina liðið sem reyni að framleiða knattspyrnumenn í stað þess að kaupa þá.

„Við reynum að viðhalda ákveðnum gildum í okkar starfi og strákarnir okkar eru meira en bara einhverjir spilarar sem hafa verið keyptir til þess að vinna titla. Við höfum aðrar hugmyndir um fótbolta og leikinn en hin félögin," sagði Wenger.

Hann virðist hafa gleymt því að hann er nýbúinn að kaupa Rússan Andrey Arshavin á 15 milljónir punda. Hann virðist einnig hafa gleymt þeirri staðreynd að flestir ungu leikmanna hans koma erlendis frá. Til að mynda verður enginn Englendingur í 18 manna leikmannahópi Arsenal í kvöld.

„Í byrjun tímabilsins spiluðum við með Walcott, Diaby, Fabregas, Nasri og Denilson. Sá elsti var 21 árs. Þegar þessir strákar verða 23 og 24 ára munu þeir auðveldlega leggja hvaða lið sem er að velli. Trúið mér þegar ég segi þetta," sagði Wenger ákveðinn.

„Við verðum að halda þessum strákum saman en það er ekki auðvelt í nútímabolta. Stóru liðin eru nefnilega hætt að ala upp unga leikmenn. Man. Utd átti sína gullkynslóð með Giggs, Scholes, Beckham, Neville-bræðrunum og Butt. Það lið vann því þeir héldu áfram að spila saman og við verðum að gera slíkt hið sama," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×