Erlent

Óttast fyrirætlanir Norður-Kóreu

Guðjón Helgason skrifar
Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu.
Norður-Kóreumenn ætla að skjóta gervihnetti á sporbaug um jörðu. Þetta tilkynntu ráðamenn í Pjongjang í morgun. Nágrannaríki Norður-Kóreu og vesturveldin óttast að ekki verði um gervihnött að ræða þegar að skotinu kemur heldur prófanir á langdrægri eldflaug.

Norður-Kóreumenn gefa ekki upp hvenær eldflauginni verði skotið á loft en hún muni bera gervihnött sem fari á sporbaug um jörðu.

Sérfræðingar telja hins vegar afar líklegt að hér verði um allt aðra prófun að ræða. Skotið verði á loft langdrægri eldflaug sem dragi nærri sjö þúsund kílómetra en þannig yrði hægt að beina henni að Alaska.

Norður-Kóreumenn léku þennan leik 1998 þegar þeir skutu eldflaug af gerðinni Taepodong eitt á loft en sú var öllu skammdrægari. Þá var því haldið fram að það væri gert til að koma gervihnetti á sporbaug um jörðu.

Í júlí 2006 var langdrægri eldflaug af gerðinni Taepodong tvö skotið á loft en það eldflaugaskot misheppnaðist. Flaugi sprakk skömmu eftir að hún fór á loft.

Ráðamenn í Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjunum hafa ráðið NorðurKóreumönnum frá því að skjóta eldlfaugum á loft enda þeim bannað að nota nokkrar skotflaugar samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eftir að þeir sprengdu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni í fyrsta sinn í október 2006.

Norður-Kóreumenn fullyrða að eldflaugaskotið nú sé eingöngu til að styrja land og þjóð og þá með því að koma sér upp gervihnetti.

Suður-Kóreumenn sem eru uggandi segja engu skipta hvort gervihnöttur eða eitthvað annað verði í eldflauginni, öll eldflaugaskot verði gegn ályktun ráðsins.

Spenna hefur magnast milli kóreskra ráðamanna í norðri og suðri síðustu vikurnar eftir nokkra þíðu síðustu misseri sér í lagi eftir að Lee Myung-bak, forsætisráðherra Suður-Kóreu, setti batt áframhaldandi efnahagsaðstoð til nágrannanan í norðri framvindu í afvopnunarviðræðum.

Þær viðræður um að Norður-Kóreumenn leggi kjarnorkuáætlun sína á hilluna hafa reyndar legið niðri og Hillary Clinton, nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir kjarnorkuáætlun Pyongyang mesta ógn við stöðugleika í norðaustur Asíu.

Nýlega sögðu ráðamenn í Pyongyang, sem hafa rift fjölda samstarfssamninga við ráðamenn í Seoul, að þeir væru tilbúnir í stríð á Kóreuskaga. Strangt til tekið hafa Kóreu ríkin tvö verið í stríði frá Kóreustríðinu 1950 til 1953 þar sem þeim átökum hafi lokið með vopnahléi en ekki friðarsamningum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×