Innlent

Nefnd um erlendar fjárfestingar skoðar aðkomu Magma að HS Orku

Silja Bára Ómarsdóttir á sæti í nefndinni.
Silja Bára Ómarsdóttir á sæti í nefndinni.

Nefnd um erlendar fjárfestingar sem skipuð er af Alþingi og hefur það hlutverk að fylgjast með að lögum um erlendar fjárfestingar sé framfylgt mun á næsta fundi skoða aðkomu Magma Energy Sweden að HS Orku. Í tilkynningu frá Silju Báru Ómarsdóttur, fulltrúa í nefndinni segir að í fjórðu grein laganna sé fjallað um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis.

„Nefndin mun koma saman innan tíðar, m.a. í þeim tilgangi að bregðast við spurningum sem beint hefur verið til hennar um lögmæti fjárfestinga erlendra aðila í grunnstoðum íslensks samfélags, á borð við orku og sjávarútveg," segir í tilkynningunni.

Bent er á að í lögunum kemur fram að íslenskir ríkisborgarar og íslenskir aðilar auk lögaðila í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins megi einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. „Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu og sambærileg ákvæði eiga við um fjárfestingar í sjávarútvegi. Lögunum er ætlað að takmarka aðkomu erlendra aðila að ákveðnum atvinnugreinum, en vegna aðildar Íslands að samningnum um evrópska efnahagssvæðið njóta aðilar innan þess sömu réttinda og íslenskir lögaðilar og einstaklingar."

Þá segir að nefndin hafi fengið spurningar um það hvort Magma Energy Sweden AB, sem virðist uppfyllaskilyrði laganna að forminu til, upfylli efnisleg skilyrði laganna. „Nefndin mun fjalla um það á næsta fundi sínum. Nefndin telur að skoða þurfi aðkomu erlendra aðila að fjárfestingum hérlendis í nýju ljósi vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í íslensku samfélagi," segir að lokum.




Tengdar fréttir

Magma kemst í kringum íslensk lög

Kanadíska jarðhitafélagið Magma Energy kemst í kringum íslensk lög, sem takmarka fjárfestingar útlendinga í íslenskum orkufyrirtækjum, með sænsku skúffufélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×