Innlent

Kettir fara illa út úr kreppunni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Köttur í leti. Mynd úr safni.
Köttur í leti. Mynd úr safni. Mynd/GVA

„Það er voðalega mikið um það að núna að fólk er að losa sig við kettina sína," segir Ásbjörg Una Björnsdóttir, stjórnarmaður í Dýrahjálp Íslands.

Ásbjörg segir ketti hafa farið illa út úr kreppunni.

„Margir eru að flytja til útlanda í aðra vinnu og geta ekki tekið dýrin með sér. Svo eru margir sem hafa þurft að flytja í annað húsnæði, minnkað við sig, og mega ekki hafa kettina með," segir Ásbjörg.

Hún vonast nú til þess að þessir ólánskettir fái nýtt heimili á laugardaginn, en þá stendur Dýrahjálp fyrir ættleiðingardegi tileinkaðan köttum í Garðheimum milli klukkan 12 og 18.

Ásbjörg vonar að sem flestir sjái sér fært að mæta og eignist nýjan fjölskyldumeðlim.

Hún bendir á að svona ættleiðingardagur sé betri en hefðbundnar smáauglýsingar, því nýjum eigendum gefst kostur á að hitta dýrin og sjá hvort þau eigi með manni samleið.

Alls verða rúmlega fjörutíu kettir í heimilisleit á ættleiðingardeginum. Dýrahjálp hefur áður aðstoðað fjölda dýra af öllum tegundum við að finna ný heimili, þar á meðal 155 hunda, 187 ketti og sex fiska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×