Innlent

Icesave afgreitt í næstu viku

Talið er nánast öruggt að Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar hafi meirihluta á Alþingi. Málið verður væntanlega afgreitt lög frá Alþingi í lok næstu viku.

Fjárlaganefnd Alþingis mun fjalla um Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar á morgun en málið mun væntanlega fara í aðra umræðu í byrjun næstu viku. Talið er líklegt að það fái fljóta afgreiðslu og að Alþingi klári málið í kringum þar næstu helgi.

Fimm þingmenn Vinstri grænna voru andsnúnir Icesave frumvarpinu í sumar en féllust hins vegar á málið eftir að Alþingi setti fyrirvara við ríkisábyrgðina.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lýsti því yfir í Silfri Egils í gær að hún ætli sér ekki að styðja nýja frumvarpið. Afstaða Lilju þykir ekki koma á óvart en hefur engu að síður vakið gremju meðal nokkurra þingmanna Vinstri grænna. Þingflokkurinn fundaði á laugardag þar sem Icesave málið var meðal annars rætt en þar tók Lilja ekki svo sterkt til orða.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur frumvarpið þó enn meirihluta á Alþingi og talið nánast öruggt að það verði samþykkt. Þeir þingmenn vinstri grænna sem fréttastofa talaði við í morgun segja að málið sé fullreynt og að ekki verði komist lengra í viðræðum við Breta og Hollendinga.

Einn þingmaður stjórnarandstöðunnar, Þráinn Bertelsson, lýsti yfir stuðningi við frumvarpið í fyrstu umræðu á Alþingi í síðasta mánuði. Því þurfa að minnsta kosti fjórir stjórnarliðar að greiða atkvæði gegn frumvarpinu til að fella það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×