Innlent

Ekki aftur í útboð þrátt fyrir gagnrýni

Framkvæmdir á brunareitnum svokallaða í miðbæ Reykjavíkur verða ekki boðnar út að nýju þrátt fyrir gagnrýni um að ekki hafi verið staðið rétt að útboðinu

Verktakafyrirtækið Fonsi átti lægsta tilboðið í framkvæmdir á brunareitnum svokallaða á horni Austurstrætis og Lækjargötu.

Verktakafyrirtækið Eykt, sem átti næst lægsta tilboðið, fékk hins vegar verkið þar sem Fonsi þótti ekki hafa uppfyllt öll skilyrði útboðsins. Framkvæmdastjóri Fonsa hefur gagnrýnt framkvæmd útboðsins og sakað framsóknarmenn um að beita sér í málinu til að tryggja að Eykt fengi verkið.

Í bréfi sem lögmaður Samtaka iðnaðarins sendi Reykjavíkurborg í gær er verklag borgarinnar í málinu gagnrýnt og talið vera ámælisvert.

Upphaflega stóð til að hafa forval fyrir framkvæmdirnar og skiluðu verktakar inn gögnum í samræmi við það. Hætt var við forvalið í síðasta mánuði og verkið sett í opið útboð og óskað eftir nýjum gögnum frá verktökum. Borgin studdist að sumu leyti við eldri forvalsgögn þegar tilboð Fonsa var metið.

Að mati lögmanns Samtaka iðnaðarins stríðir þetta gegn almennum reglum stjórnsýsluréttar.

Þessari ályktun mótmæli innkaupastjóri Reykjavíkurborgar í svarbréfi til samtaka iðnaðarins í dag. Þar segir að öllum formreglum um framkvæmd útboða hafi verið fylgt til hins ýtrasta í málinu.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í innkauparáði ætlar að taka málið upp á fundi ráðsins í næstu viku. Hallur Magnússon, formaður innkauparáðs, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ekki verði farið í annað útboð þar sem slíkt gæti skapað borginni bótaskyldu gagnvart Eykt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×