Innlent

Borgarfulltrúar borgi sjálfir fyrir laxveiði- og leikhúsferðir

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi, hyggst leggja til á næsta borgarstjórnarfundi að borgarfulltrúar greiði úr eigin vasa fyrir laxveiði- og leikhúsferðir sem þeim er boðið í sem kjörnum fulltrúum.

Á fundi borgarráðs í dag óskaði Ólafur eftir því að fá svör við því hvaða borgarfulltrúar hefðu þegið boð um veiði í Elliðaánum á kjörtímabilinu. Einnig vildi hann vita um kostnað vegna boðferða borgarfulltrúa meðal annars í laxveiði og leikhús. Ólafur telur brýnt að fram komi í dagsljósið hversu mikið borgarfulltrúar þyrftu annars að greiða úr eigin vasa fyrir þessi hlunnindi. Ólafur á von á því að fyrirspurninni verði svarað á næsta fundi borgarráðs.

„Ég mun á næsta borgarstjórnarfundi flytja tillögu um það að hér eftir skuli borgarfulltrúar, ef þeir á annan borð vilja þiggja boð á borð við veiði í Elliðaánum, leikhúsferðir og ýmislegt annað, annað greiða kostnað úr eigin vasa. Það hlýtur að vera eina rökrétta niðurstaðan," sagði Ólafur að loknum borgarráðsfundi í dag.

Ólafur telur brýnt að dregið verði úr því sem hann kallar ferðafyllerí borgarfulltrúa. „Þetta er óþolandi á tímum aðhalds- og samdráttar," sagði Ólafur. „Ferðagleði borgarstjóra nær ekki nokkurri átt. Hanna Birna virðist geta verið á sífelldu ferðalagi með vini sínum Óskari Bergssyni."




Tengdar fréttir

Ólafur spyr um veiðiferðir borgarfulltrúa

Ólafur F. Magnússon óskar þess á fundi borgarráðs í dag, að fá svör við því hverjir borgarfulltrúa hefðu þegið boð um veiði í Elliðaánum á kjörtímabilinu. Þá spyr hann einnig um kostnað vegna laxveiðinnar, enn fremur um boðsferðir borgarfulltrúa í leikhús og fleira. Meðal þess sem Ólafur vill að komi fram í dagsljósið er hversu mikið borgarfulltrúarnir þyrftu annars að greiða úr eigin vasa fyrir þessi hlunnindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×