Innlent

Þungt haldinn í öndunarvél

Maðurinn sem slasaðist í flugslysinu í Vopnafirði í gær er þungt haldinn á gjörgæslu. Vakthafandi læknir á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi segir að manninum sé haldið sofandi í öndunarvél. Einn maður lést í slysinu en Rannsóknarnefnd flugslysa rannsakar nú málið.

Flugvélin er af gerðinni Cessna 180 og er fjögurra sæta einkaflugvél með einkennisstafina TF-GUN. Tveir menn voru um borð og sátu þeir í framsætum flugvélarinnar. Vélin brotlenti í Serárdal í Vopnafirði en henni hafði verið flogið frá Tungubakkaflugvelli í Mosfellsbæ til Vopnafjarðar-flugvallar fyrr um daginn. Í tilkynningu frá Rannsóknarnefnd flugslysa segir að flugáætlun vélarinnar hafi svo verið frá Vopnafirði um klukkan fjögur og var ferðinni heitið til Mosfellsbæjar á ný.

Eftir flugtak var flugvvélinni flogið að Veiðihúsinu Hvammsgerði í Selá og bendir vettvangsrannsókn bendir til þess að vélinni hafi verið flogið á rafmagnsstreng með þeim afleiðingum að hún brotlenti. Slysið var tilkynnt til Neyðarlínu klukkan rétt fyrir klukkan fjögur. Í slysinu lést annar maðurinn og hinn er mikið slasaður og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Að sögn vakthafandi læknis á Gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi er hann þungt haldinn. Honum er haldið sofandi í öndunarvél. Rannsóknarnefnd flugslysa vinnur að vettvangsrannsókn í Selárdal og mun flytja flak flugvélarinnar til Reykjavíkur til frekari rannsóknar.

Flugslysið í Vopnafirði í gær er fyrsta banaslysið í íslensku loftfari í níu ár. Með því er rofið lengsta slysahlé í íslenskri flugsögu allt frá árinu 1942, eða í 67 ár. Síðasta banaslys varð á Skerjafirði þann 7. ágúst árið 2000 og kostaði sex manns lífið þegar lítil tveggja hreyfla leiguvél skall í sjóinn eftir að hafa hætt við lendingu á Reykjavíkurflugvelli en hún var að flytja gesti af þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Síðan hafa reyndar þrjár útlendar vélar í ferjuflugi farist í hafinu við Ísland, þar af tvær á síðasta ári, en allar voru þær með erlenda flugmenn og skráðar erlendis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×