Innlent

Hannaði gistiheimili í gamalli rafstöð

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Svona sér Sólveig fyrir sér að gestir gistiheimilisins geti kafað um jarðhæð gömlu rafstöðvarinnar, eftir að hún hefur verið fyllt af vatni.
Svona sér Sólveig fyrir sér að gestir gistiheimilisins geti kafað um jarðhæð gömlu rafstöðvarinnar, eftir að hún hefur verið fyllt af vatni. Mynd/Solveigragna.com
„Ég nota gamla húsið, held grindinni og klæðningunni og bæti inn hosteli í litlum einingum sem eiga að líkja eftir vélunum," segir Sólveig Ragna Guðmundsdóttir, nýútskrifaður arkitekt úr Arkitektaskólanum í Árósum.

Lokaverkefni Sólveigar var með forvitnilegra móti, en hún vann með gömlu vararafstöðina í Elliðaárdalnum. Hún setti fram þá hugmynd að opna gistiheimili, eða hostel, í stöðinni.

Sólveig fékk innblástur úr gamla vélarbúnaðinum sem prýðir rafstöðina og vill að hann fái að halda sér. Þannig gengur hún gegn hefðbundnum nútímaarkitektúr þar sem hið gamla er oft rifið út.

Nýju einingarnar sem mynda herbergi, móttöku, mötuneyti og fleira eiga svo að líkja eftir hinu vélræna og hafa fengið vélarnöfn. Herbergin eru til dæmis svefnvélar, svokallaðar Shackines - blanda af ensku orðunum shack og machine.

Einn hluti hugmyndar Sólveigar er svo að opna vatnsleiðslur gömlu rafstöðvarinnar og hleypa vatni á neðstu hæð hússins.

„Hluti af pælingunni er að jarðhæðin verði fyllt vatni svo hægt sé að skoða vélarnar frá nýju sjónarhorni, vélarnar eru gerðar ónothæfar þegar náttúran er búin að taka yfir," segir Sólveig, sem vill að köfunargræjur verði leigðar gestum gistiheimilisins svo þeir geti kafað um jarðhæð hússins.

Hún gerir ráð fyrir að álar og aðrir fiskar sem leynast í Elliðaánum muni jafnvel synda um jarðhæð hússins, svo kafararnir geti upplifað hið náttúrulega og vélræna á súrrealískan hátt.

Hægt er að lesa nánar um hugmyndina á heimasíðu Sólveigar, Solveigragna.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×