Erlent

Abbas gæti setið áfram

Aðalsamningafulltrúi Palestínustjórnar á fundi með utanríkisráðherrum arabaríkjanna í Kaíró.
Nordicphotos/AFP
Aðalsamningafulltrúi Palestínustjórnar á fundi með utanríkisráðherrum arabaríkjanna í Kaíró. Nordicphotos/AFP
Mahmoud Abbas, forseti Palestínustjórnar, gæti hæglega setið áfram í embætti ótímabundið þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að hann ætli ekki að bjóða sig fram í kosningunum í janúar.

Kjörstjórn Palestínustjórnar lagði nefnilega til í gær að hætt yrði við kosningarnar. Abbas þarf þó að gefa samþykki sitt til þess, en þarf þá heldur ekki að hætta við að hætta við framboð til að geta setið áfram.

Engin von virðist til þess að friðarviðræður við Ísraela geti haldið áfram á næstunni. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti reyndi þó í gær að hvetja Abbas til að hefja friðarviðræður á ný.

Abbas hefur ítrekað sagt að ekki komi til greina að halda áfram friðarviðræðum meðan Ísraelar haldi áfram uppbyggingu og framkvæmdum á landtökusvæðum. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur sömuleiðis ítrekað neitað að fallast á að stöðva þær framkvæmdir.

„Við gerðum það sem ætlast var af okkur,“ sagði Abbas í gær, þegar Palestínumenn minntust þess að fimm ár eru liðin frá því að Jasser Arafat, forveri Abbasar, lést. „En við horfum upp á Ísraela taka frá okkur land og reisa þar byggðir.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×